Áherslur í skólastarfi

Skólinn

Mílan

Mílan er verkefni að skoskri fyrirmynd sem heitir The Daily Mile. Um 5000 skólar víðs vegar um heiminn eru þátttakendur í verkefninu en Skarðshlíðarskóli er fyrsti íslenski skólinn sem tekur þátt.

Daglega fara allir nemendur út í 15 mínútur og ganga, skokka eða hlaupa. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikinn ávinning fyrir alla með þessari einföldu leið. Þar má nefna betri líðan, aukið sjálfstraust, betri einbeitingu, betri samskipti, minni streitu og kvíða og aukna þrautseigju. Auk þess er þetta öflug leið til að bregðast við offitu og kyrrsetu.

Margir fara um eina mílu (1.6 kílómetra) á 15 mínútum og þess vegna heitir verkefnið The Daily Mile. Skarðshlíðarskóli hefur ákveðið að nota nafnið Mílan. Það góða við þetta verkefni er að það kostar ekkert og allir geta tekið þátt. Það er engin þörf á að hita upp eða vera í sérstökum fatnaði, hver og einn fer eins og hann er klæddur þann daginn. Gert er ráð fyrir tíma í verkefnið í viðmiðunarstundaskrá, en þar er tekinn tími af vali og einu sinni í viku fara allir nemendur skólans saman í frímínútum.

Það er til mikils að vinna og árangurinn hefur sýnt sig. Starfsfólki líður vel eftir að hafa farið út með nemendum, þeim finnst nemendur hafa betra úthald til náms og það sér mikinn mun á úthaldi og hraða nemenda í Mílunni eftir að verkefnið hófst. Þetta er ekki keppni, bara félagsskapur og gleði – allir fara á sínum forsendum. Kennarar upplifa að þarna sé tækifæri til að kynnast nemendum á annan hátt og oft sé rætt um önnur málefni en í kennslustofunni. Nemendur eru líka ánægðir með Míluna.

Mílan hefur vakið heilmikla athygli, bæði hjá skólafólki og almenningi, og Skarðshlíðarskóli er ótrúlega stoltur af þessu verkefni. Starfsfólk og nemendur hafa sýnt mikla samvinnu og þrautseigju og hafa farið út nánast undantekningarlaust í öllu veðri. Það er ekki sjálfgefið að svona verkefni dafni, en með öflugu starfsfólki og frábærum nemendum þá er allt hægt.

SMT skólafærni

Markmið SMT er að skapa jákvæðan skólabrag og tryggja öryggi og velferð allra í skólasamfélaginu. Áhersla er á að veita jákvæðri hegðun markvisst athygli og draga þannig úr óæskilegri hegðun nemenda, auk þess að þjálfa félagsfærni og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart óæskilegri hegðun.

Skýrar og sýnilegar reglur

Skólinn hefur gildi sem eru undirstaða skólareglna. Gildi skólans eru samvinna, vinátta og þrautseigja. Skólahúsnæðinu er skipt upp í svæði og gilda ákveðnar reglur á hverju svæði fyrir sig. Reglur eru kenndar eftir ákveðinni áætlun og gerðar sýnilegar á þeim svæðum sem þær gilda um.

Fiðrildagjöf

Hrós er notað með markvissum hætti, bæði munnlegt hrós, félagslegt hrós og með táknum. Í Skarðshlíðarskóla eru notuð fiðrildatákn. Fiðrildagjöf er liður í SMT og er ein leið til að veita jákvæðri hegðun gaum. Það styrkir enn frekar jákvæða hegðun ef orð er sett á hegðunina þegar fiðrildi er gefið.

Dæmi

  • Flott hjá þér, nú fórstu eftir fyrirmælum.
  • Nú leiddir þú hegðun þeirra hjá þér. Glæsilegt hjá þér.

Bekkurinn safnar fiðrildum og þegar tilteknum fjölda er náð (10 sinnum fjölda nemenda) er haldin fiðrildaveisla. Þá ákveður bekkurinn í sameiningu hvað á að gera í fiðrildaveislunni sem er miðað við að taki um 2 kennslustundir. Hvað verður fyrir valinu er fjölbreytt, til dæmis að horfa á mynd, útileikir, hjólaferð, tækjadagur, kökuveisla – allt eftir áhugasviði bekkjarins.

Eineltisáætlun

Skarðshlíðarskóli leggur metnað sinn í að skapa vingjarnlegt andrúmsloft sem byggir á gagnkvæmri virðingu og jákvæðni. Markmið skólans er að öllum líði vel og finni til öryggis. Leitað verður allra leiða til að fyrirbyggja einelti, stöðva og leysa þau mál sem upp koma.

Í samræmi við þessa sýn lýsir starfsfólk, nemendafélag, foreldrafélag og foreldraráð Skarðshlíðarskóla því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verður liðið í skólanum. Einelti er ekki ásættanlegt og í Skarðshlíðarskóla er litið á það sem samstarfsverkefni heimila og skóla að stuðla að velferð nemenda þar sem einelti á aldrei rétt á sér.

Eineltisteymi

Eineltisteymið kallar til sín fagfólk eftir eðli og umfangi hvers máls. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara eða annað starfsfólk skólans strax ef grunur vaknar um einelti.

Eineltisteymi

  • Helga Huld Sigtryggsdóttir deildarstjóri
  • Margrét Hildur Ríkharðsdóttir, deildarstjóri
  • Hörn Ragnarsdóttir, skólafélagsráðgjafi
  • Lovísa Hafsteinsdóttir, náms- og starfsráðgjafi.

Viðbrögð og vinnuferli við einelti

Skarðshlíðarskóli hefur skýrar reglur og vinnuferli um hvernig tekið er á einelti. Alltaf skal bregðast strax við einelti, eða grun um einelti, til að hægt sé að vinna markvisst að því að stöðva það. Allt starfsfólk skólans skal hafa afskipti af hvers kyns ofbeldi og einelti.

Ef vitneskja um einelti berst til skólans, mun starfsfólk vinna samkvæmt skilgreindu vinnuferli.

Forvarnir gegn einelti

Það er markmið Skarðshlíðarskóla að halda upp virku forvarnarstarfi gegn einelti sem beinist að því að stuðla að góðum bekkjaranda og byggja upp traust og samvinnu milli heimila og skóla. Nauðsynlegt er að starfsmenn, nemendur og forráðamenn þeirra vinni saman með fyrirbyggjandi aðgerðum sem miða að því að draga úr eða koma í veg fyrir einelti. Þar má nefna:

  • SMT skólafærni.
  • Skýrar skólareglur.
  • Bekkjarreglur.
  • Unnið með hópefli innan bekkjarins.
  • Eineltisáætlun er fyrir hendi og endurskoðuð reglulega.
  • Mikilvægt er að starfsfólk, foreldrar og nemendur þekki stefnu skólans í eineltismálum, séu meðvitaðri um einelti, þekki einkennin, geti brugðist við þeim og viti hvert skal leita.
  • Regluleg fræðsla um einelti og umræður um það. Brýnt er fyrir nemendum að láta umsjónarkennara vita ef grunur um einelti kemur upp.
  • Allir þurfa að vera meðvitaðir um afleiðingar eineltis og samtaka í því að koma í veg fyrir það.
  • Tengslakannanir eru notaðar til að kortleggja stöðuna í hverjum bekk einu sinni á ári og oftar ef þurfa þykir.
  • Notast er við Verkfærakistu KVAN við lausn á samskiptavanda, bæði í bekkjum og minni hópum.
  • Virkt eftirlit í frímínútum, íþróttahúsi, sundlaug, matsal, kennslustofum og á öllum svæðum skólans þar sem nemendur koma saman.