Áherslur í námi og kennslu

Nám og kennsla

Áherslur í námi og kennslu

Í Skarðshlíðarskóla er áhersla lögð á hreyfingu, fjölbreytta kennsluhætti, sköpun og umhverfisvernd.

Teymiskennsla

Teymiskennsla kennara er ein af lykilstoðum í námi og kennslu nemenda þar sem hver árgangur er ein heild með tvo eða fleiri umsjónarkennara. Þetta byggir á náinni samvinnu og vináttu kennarateymis og árgangsins í heild. Þá viljum við stuðla að jákvæðri samvinnu og góðu upplýsingastreymi við forráðamenn nemenda því þeir eru mikilvægur hlekkur í námi barnanna.

Góð samvinna er við leikskólana í hverfinu og við tónlistarskólann sem er í sömu byggingu.

UDL (Universal Design of Learning)

Helsta markmið UDL (eða altæk hönnun náms) er að greina hindranir í námsumhverfinu og fella þær þannig að komið sé til móts við alla nemendur á þeirra forsendum. Litið er á að hindranir séu í umhverfinu en ekki hjá nemandanum. Aðferðafræðin nær til allra nemenda, styður við skóla án aðgreiningar og stuðlar að auknum jöfnuði.

Snemmtæk íhlutun

Kennarar í 1. bekk og sérkennarar skólans unnu þróunarverkefni um snemmtæka íhlutun í málörvun og lestrarnámi með Ásthildi B. Snorradóttur talmeinafræðingi. Afraksturinn var gerð handbókar fyrir skólann. Handbókin er leiðbeinandi og lifandi uppflettirit fyrir starfsfólk til þess að samhæfa fagvinnu og festa ákveðin vinnubrögð í sessi.