Ýmsar upplýsingar er tengjast skólastarfinu.
Powered by Google Translate
Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.
Mikilvægt er að starfsfólk sé vel undibúið til að takast á við erfiðleika sem fylgja ýmsum áföllum. Það er nauðsynlegt að samkomulag og skýr vitneskja sé um hvernig bregðast skuli við. Í skólanum er starfandi áfallateymi. Hlutverk þess er að gera vinnuáætlun svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við þegar áföll verða. Tekið er tillit til aðstæðna hverju sinni þegar viðbrögð við áföllum eru ákveðin.
Í upphafi skólaárs fundar áfallaráð og fer yfir hvort breytingar hafi orðið á aðstæðum nemenda eða starfsfólks vegna alvarlegra slysa, veikinda, dauðsfalla eða annarra áfalla. Ráðið fundar einu sinni á önn og ef áfall verður er fundað eins fljótt og auðið er. Skólastjóri, eða staðgengill, kallar saman ráðið. Áfallaráð sér líka til þess að starfsfólk fái kynningu á því hvernig bregðast skuli við áföllum og fái þann stuðning og aðstoð sem þörf er á.
Allar aðgerðir skólans eru bornar undir forsjáraðila til samþykkis og þeir eru með í ráðum frá upphafi. Skólastjóri eru alltaf eini tengiliðurinn við fjölmiðla eða aðila utan skólans, aðrir hafa ekki leyfi til að gefa upplýsingar um atburði.
Allir nemendur eru í frímínútum frá kl. 9:30 til 9:50.
Nemendur í 1.–7. bekk mega ekki fara út af skólalóð á skólatíma nema með sérstöku leyfi umsjónarkennara eða starfsfólks skólans. Nemendur í 8.–10. bekk mega fara út af skólalóð í frímínútum, hádegishléum og eyðum í stundatöflu.
Ef nemendur yngri deilda þurfa af einhverjum ástæðum að vera inni í frímínútum þurfa þeir að hafa með sér beiðni að heiman til umsjónarkennara, þar sem ástæða óskar um inniveru er tilgreind. Miðað er við að nemandi sé ekki inni í meira en einn dag eftir veikindi.
Gæslu í frímínútum sinna skólaliðar og kennarar ýmist úti eða inni. Ef veður hamlar útivist eru nemendur innandyra undir umsjón kennara og skólaliða.
Markmið heimanáms er að æfa lestur og auka þannig lestrarfærni. Að nemendur þjálfi enn frekar og rifji upp það sem kennt er í skólanum. Nemendur þjálfist í sjálfstæðum vinnubrögðum og taki ábyrgð á námi sínu. Vinna upp efni/áætlun sem ekki næst að klára á skólatíma. Að veita forráðamönnum tækifæri til að taka þátt og fylgjast með námi barna sinna.
Áætlanir og birtingar Heimanám er birt á Google Classroom í 8.-10. bekk og/eða sent i tölvupósti til forráðamanna. Kennarar í 1.-10. bekk senda vikupósta með upplýsingum um nám nemenda og útskýra þá verkefni sem vinna á heima. Fyrirvari á að vera varðandi skil á verkefnum þannig að nemendur og forráðamenn geti skipulagt heimanámið.
Innihald/skipulag
1.-4. bekkur heimalestur daglega upphátt í a.m.k 15 mínútur. Samhliða heimalestrinum eru vikuleg verkefni.
5.-7 bekkur heimalestur daglega upphátt í a.m.k 15 mínútur. Samhliða heimalestrinum eru vikuleg verkefni. Miða skal við að heimanám taki að hámarki 40 – 50 mín á dag.
8.-10. heimalestur lesið heima 5 daga vikunnar og heimaverkefni.
Heimaverkefni eru ýmist til upprifjunar, undirbúnings fyrir kennslustund og verkefni sem nemanda tekst ekki að ljúka í kennslustund.
Ef heimanám nemenda tekur óeðlilega langan tíma eða veldur of miklu álagi á barn skal hafa samband við kennara sem fyrst.
Hlutverk foreldra er að bera ábyrgð á að nemendur sinni heimanámi. Skapa ró og reglusemi í kringum námið. Styðja við bakið á barninu sínu, leiðbeina og hvetja það áfram við námið eftir því sem við á hverju sinni.
Hlutverk nemenda er að skipuleggja heimanám með foreldrum. Ljúka við heimanám og skila því á tilsettum tíma. Sýna ábyrgð og leggja sig fram í náminu.
Hlutverk kennara er að gefa góðar upplýsingar um heimanám. Sjá til þess að nemendur fái upplýsingar til að geta leyst verkefni heima. Fara yfir heimanám og meta. Hafa samband við forráðamenn eftir þörfum.
Í Skarðshlíðarskóla er lögð áhersla á að taka vel á móti nýjum nemendum til að fyrstu kynni þeirra af skólanum veiti þeim öryggi og vellíðan og þeim finnist þau velkomin í skólann.
Foreldrar eru ábyrgir fyrir innritun barna sinna í grunnskóla á árinu sem þau eru 6 ára. Innritun í grunnskóla Hafnarfjarðar fer fram á Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar. Börn hafa sjálfkrafa aðgang að hverfisskóla þar sem þau eru með lögheimili en hægt er að sækja um annan skóla.
Skólinn er með móttökuferli þar sem sérstaklega er tekið á móti nemanda og aðstandendum og skóli og umsjónarbekkur er kynntur. Skólastarfið er undirbúið með viðtali og skoðun á skóla og kynnt samstarf skólans við heimilið. Þátttakendur í
móttökuviðtali eru alltaf umsjónarkennari og að minnsta kosti einn annar fulltrúi skóla, til dæmis, starfs- og námsráðgjafi eða deildarstjóri.
Nemanda og foreldrum hans er boðið að koma í heimsókn í skólann. Stjórnendur, eða fulltrúi þeirra, taka á móti þeim og kynna skólastarfið og sýna þeim húsnæðið.
Umsjónarkennari sér um að:
Skólinn finnur nemanda bekk og undirbýr bekkjarfélaga fyrir komu hans. Nemandinn tengist tungumálaverinu Veröld og starfsfólki þess. Umsjónarkennari hefur umsjón með
móttöku nemenda með annað móðurmál í sinn bekk og heldur utan um nám þeirra, nema eitthvað annað hafi verið ákveðið í einstaka tilfellum, til dæmis að sérkennari hafi þá ábyrgð). Nemandi fær sérstakan stuðning við íslenskukennslu. Í öllu skólastarfi er miðað að því að nemandinn geti tekið þátt í félagsstarfi í skólanum líkt og aðrir nemendur.
Ef nemendur eru með ofnæmi fyrir einhverjum matvælum er mikilvægt að upplýsa skólann og þau sem sjá um matinn um það. Skarðshlíðarskóli er sesamlaus skóli.
Öllum grunnskólabörnum í Hafnarfirði er boðið upp á hafragraut 20 mínútum fyrir fyrstu kennslustund. Grauturinn er borinn fram í matsalnum frá 07:50–08:10.
Hægt er að skrá barn í heitan mat í hádeginu sem Skólamatur sér um. Matseðill fyrir vikuna birtist á vef skólans og Skólamatar.
Í byrjun skólaárs þarf að skrá barn í mataráskrift á vefsíðu Skólamatar. Það er hægt að velja fasta áskrift 5 daga vikunnar, sérstaka daga eða kaupa stakar máltíðir. Áskriftin framlengist sjálfkrafa um 1 mánuð, nema ef áskrift sé sagt upp eða breytt.
Lögð er áhersla á næringu barna, umhverfissjónarmið og matarsóun. Allir matseðlar eru næringaútreiknaðir og farið eftir ráðleggingum embætti Landlæknis.
Nemendur sem ekki eru í mataráskrift skulu hafa með sér hollan hádegisverð í skólann. Nemendur hafa aðgang að heitu vatni, örbylgjuofni og samlokugrilli.
Á morgnana er hressing og hægt er að kaupa áskrift af ávöxtum- og grænmeti hjá Skólamat.
Ef þú átt 2 eða fleiri börn í grunnskóla færðu 25% afslátt af mataráskrift fyrir annað systkinið og 100% afslátt frá og með því þriðja. Systkini verða að vera með sama lögheimili og fjölskyldunúmer í Þjóðskrá.
Ef þú uppfyllir þessar reglur þarf ekki að sækja um sérstaklega, annars þarf að sækja um á Mínum síðum Hafnarfjarðarbæjar. Sækja þarf um fyrir 20. mánaðar til að fá afslátt fyrir mánuðinn eftir. Afslátturinn er ekki afturvirkur.
Skarðshlíðarskóli notar náms- og upplýsingakerfið Mentor þar sem nemendur geta séð stundatöfluna sína, fylgst með ástundun og námsframvindu. Foreldrar og nemendur hafa aðgang að kerfinu með kennitölu og lykilorði. Foreldrar hafa sama aðgang og nemendur auk þess að geta fylgst með skráningum í dagbók nemandans.
Foreldrar geta haft samband með tölvupósti við foreldra barna í bekk barnsins síns og kennara skólans í gegnum Mentor, tilkynnt veikindi og leyfi sem eru 2 dagar eða styttri, bókað viðtöl við kennara og fleira.
Margvíslegar aðferðir eru notaðar til að gefa nemendum mat á námi sínu, til dæmis próf, mat á ritgerðum og verkefnum og þátttökumat. Leiðbeinandi mat gerist yfir allt skólaárið með reglulegri endurgjöf til nemenda. Það felur í sér að benda nemanda á hvar hann er staddur, hvað hann kunni og geti gert betur, og hvetja nemendur í náminu til að auka líkur á því að hann nái.
Yfir veturinn er námsmat birt meðal annars í verkefnabókum og námsmatsmöppum á Mentor, undir námsmati. Staðan í náminu er kynnt í foreldraviðtölum á miðri önn eða í lok annar.
Við lok skólaárs er gert lokamat sem segir til um hversu vel nemandi hefur náð viðmiðum sem lögð voru upp með í náminu.
Nemendur í 8.–10. bekk geta fengið nemendaskáp frá skólabyrjun til skólaloka. Þau borga 1000 krónur sem fæst endurgreitt í lok skólaárs ef skápurinn er í góðu ástandi.
Nemendur bera fulla ábyrgð á því að læsa skápnum sínum og passa upp á að hafa þar dót sem ekki á að geyma á göngum skólans. Ef nemandi gerist brotlegur varðandi notkun og umgengni um nemendaskáp gæti hann átt á hættu að missa skápinn sinn.
Oft safnast töluvert af óskilafatnaði á göngum skólans. Ef fötin eru merkt komast þau strax til skila og því mikilvægt að merkja föt, skó og aðrar eigur barnanna.
Óskilamunir eru teknir fram og eru sýnilegir á viðtalsdögum þegar búist er við foreldrum í skólann. Foreldrar geta líka komið við í skólanum hvenær sem er ef þeir sakna einhvers.
Fatnaður sem er ósóttur eftir lok hvers skólaárs er gefinn til Rauða krossins.
Nemendur í grunnskólum í Hafnarfirði fá ókeypis stílabækur, skriffæri, möppur og önnur ritföng sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi. Námsbækur eru einnig ókeypis eins og alltaf hefur verið. Ætlast er til að ritföng verði eftir í skólanum og að nemendur geti unnið heimanám með ritföngum sem eru til á heimilinu.
Foreldrar þurfa aðeins að sjá börnum sínum fyrir skólatösku, sund- og íþróttafatnaði og skriffærum til notkunar heima.
Markmiðið er að draga úr kostnaði foreldra við nám barna sinna, tryggja jafnræði, nýta fjármuni betur og draga úr sóun.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendir út tilkynningar um veður þegar á þarf að halda, í samráði við lögreglu og skólayfirvöld.
Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar fylgist vel með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum tilmælum frá yfirvöldum sem gætu haft áhrif á skólastarf barna og bregðist við í samræmi við aðstæður hverju sinni.
Þemavika er einu sinni fyrir jól og aftur í mars. Fyrri þemavikan gengur út á vináttu en í seinni vikunni er unnið með þema sem starfsfólk og nemendur velja. Þá er allt skólastarf brotið upp og nemendur vinna í blönduðum hópum. Vikunni lýkur með sýningu fyrir skólasamfélagið.
„Hour of code“ (klukkustund kóðunar) er alþjóðlegur viðburður þar sem nemendur á öllum aldri læra og leika sér í forritun. Viðburðurinn er haldinn árlega í byrjun desember og stendur yfir í eina viku. Allir nemendur skólans taka þátt með tugmilljónum nemenda um allan heim.
Fjáröflun fyrir ferðirnar er í höndum foreldra eða bekkjartengla.
Nemendur í 7. bekk taka þátt á hverju ári í Stóru upplestarkeppninni. Hún hefst á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars þegar valdir eru 3 bestu upplesararnir í hverju sveitarfélagi.
Nemendur í 4. bekk taka þátt í Litlu upplestrarkeppninni sem byggist á sömu hugmyndafræði og Stóra upplestarkeppnin nema þar er ekki keppni milli nemenda heldur er áherslan á að bæta árangur í lestri og framkomu.
Bjartir dagar er bæjarlistahátíð í Hafnarfirði en á hverju ári taka nemendur í 3. bekk þátt í setningu hennar á Thorsplani.
Sveigjanlegur dagur frá kl 8:10 til 11:10. Sérstök dagskrá er skipulögð í skólanum þar sem nemendur og starfsfólk koma gjarnan í búningum í tilefni dagsins.
Við skólalok í júní taka allir nemendur þátt í íþróttadegi sem lýkur með grillveislu.
Það er hlutverk foreldra og forsjáraðila að ákveða reglur um notkun spjaldtölvunnar heima fyrir, hvað nemandi má gera og hve lengi. Oft getur verið gott að foreldrar í bekk eða árgangi samræmi slíkar reglur sín á milli, hversu mikil notkun megi vera, hve lengi í einu, hve lengi fram eftir og svo framvegis.
Í Skarðshlíðarskóla fá allir nemendur í 5.—10. bekk spjaldtölvu til afnota.
Nemendur í 5.–7. bekk geyma spjaldtölvurnar að mestu í skólanum. Spjaldtölvurnar eru geymdar í sérstökum skáp þar sem þær eru hlaðnar yfir nótt. Kennari getur þó beðið nemendur um að taka spjaldtölvu með heim ef þörf er á til að vinna ákveðin verkefni.
Nemendur í 8.–10. bekk fara með spjaldtölvurnar heim í lok skóladags og koma með þær hlaðnar næsta skóladag. Mikilvægt er að tölvan sé alltaf fullhlaðin í byrjun dags þar sem hún er mikið notuð í kennslu og hætta á að tölvan eða hleðslutæki skemmist við að hlaða á göngum og í skólastofum. Ef það gerist þurfa foreldrar að útvega skólanum nýtt tæki.
Við lok hvers skólaárs skila nemendur spjaldtölvunni ásamt hleðslutæki til skólans til geymslu yfir sumarið.
Í boði er fjölbreytt úrval valmöguleika fyrir nemendur í 8.–10. bekk. Sumar valgreinar eru sameiginlegar fyrir 8. – 10. bekk, aðrar fyrir 9. og 10. bekk og Valgreinabæklingur er sendur til nemenda strax á haustin og settur inn á svæði þeirra á Google-classroom og nemendur velja fög .
Valgreinar eru kenndar hálft ár í senn, 1 til 2 kennslustundir í einu nema annað sé tekið fram í áfangalýsingu. Valgreinar eru ekki aukagreinar heldur eru þær jafn mikilvægar og kjarnagreinarnar og kröfur um ástundun og árangur þær sömu.
Val er bindandi fyrir komandi skólaár og því er mikilvægt að vanda valið. Ef ekki er nóg þátttaka í einstaka valgreinum geta þær fallið niður.
Nemendur geta sótt um að fá nám í öðrum skóla, íþrótta- og tímstundaiðkun auk þátttöku í atvinnulífinu sem hluta eða að öllu leyti í stað valáfanga. Ef nemandi stundar tvær íþróttagreinar eða nám utan skóla má fá 4 kennslustundir metnar.
Til að staðfesta þátttöku í utanskólavali þarf nemandi að skila sérstöku eyðublaði sem skólinn leggur til með undirskrift foreldris. Nemendur og foreldrar bera fulla ábyrgð á þessum skilum til að starfið fáist metið.
Foreldrar þurfa að tilkynna veikindi gegnum Mentor eða á skrifstofu skólans í síma 527 7300 fyrir 8:30. Ef það er ekki gert er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða. Standi veikindi yfir í nokkra daga á að tilkynna þau fyrir hvern dag.
Leyfi í 2 daga eða minna er hægt að tilkynna í Mentor, með tölvupósti eða hringja í skólann í síma 527 7300.
Leyfi fyrir meira en 2 daga þarf að tilkynna sérstaklega á vefsíðu skólans. Skólinn gefur ekki út sérstakt heimanám eða sérverkefni til nemenda í leyfum né gerir tilfærslur á námi. Allt nám er á ábyrgð forsjáraðila meðan á leyfi stendur.
Stafrænar öryggismyndavélar eru utanhúss í skólanum og við suma innganga. Markmiðið er að hafa rafræna vöktun á skólabyggingunni og skólalóðinni í öryggisskyni og til varnar því að eigur séu skemmdar eða þeim stolið.
Upptökur eru einungis skoðaðar ef upp koma atvik varðandi eignavörslu eða öryggi einstaklinga, eins og þjófnaður, skemmdarverk eða slys. Heimild til skoðunar er aðgangsstýrð en myndefni er vistað að hámarki í 90 daga og eytt að þeim tíma loknum.
Vöktunin er útfærð í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Merkingar með viðvörunum um rafræna vöktun eru uppsettar á vöktuðu svæðunum.