Skólinn

Í Skarðshlíðarskóla eru 2 til 3 bekkjardeildir í hverjum árgangi. Í upphafi skólaársins 2023–24 eru um 430 nemendur í skólanum.

Skólahverfi Skarðshlíðarskóla markast af svæði á Völlunum innan (austan) Hvannavalla, gatan Hafravellir, öll Skarðshlíð og Hamranes. Börn hafa forgang í þann hverfisskóla þar sem þau eiga lögheimili en hægt er að sækja um skólavist í öðrum skólum. Sjá nánar um innritun í grunnskóla.

Leiðarljós

Gildi Skarðshlíðarskóla eru leiðarljós skólastarfsins en þau eru samvinna, vinátta og þrautseigja. Tákn skólans er fiðrildi sem er myndað úr tveimur hjörtum. Merkingin á bak við fiðrildið er að lítil púpa breytist í fallegt og litríkt fiðrildi líkt og grunnskólagangan á að vera umbreytingarferli fyrir nemendur. Gildin og táknið eiga að endurspeglast í stefnu skólans og öllu hans starfi. Skólinn leggur áherslu á SMT-skólafærni sem notuð er til að skapa jákvæðan skólabrag og tryggja velferð allra innan skólans. Lögð er áhersla á að styrkja jákvæða hegðun til að fyrirbyggja og draga úr óæskilegri hegðun.

Stefna

Í Skarðshlíðarskóla er nemandinn í forgrunni í öllu starfi, við viljum útskrifa skapandi nemendur með gott sjálfstraust, sem eru sjálfstæðir, lausnarmiðaðir og tilbúnir að takast á við verkefni framtíðarinnar. Lýðræði er samofið öllu starfi og áhersla lögð á vináttu og vinsemd. Einnig er áhersla á góðan námsárangur, fjölbreytta kennsluhætti, lífsleikni og leiðtogafærni. Leitað er allra leiða til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og að námsumhverfi sé hvetjandi og allir fái notið sín í leik og starfi.

Skarðshlíðarskóli leggur metnað sinn í að skapa vingjarnlegt andrúmsloft sem byggir á gagnkvæmri virðingu og jákvæðni. Markmið skólans er að öllum líði vel og finni til öryggis. Leitað verður allra leiða til að fyrirbyggja einelti, stöðva og leysa þau mál sem upp koma. Einelti er ekki liðið undir neinum kringumstæðum og er litið á það sem alvarlegt brot á skólareglum. Starfsfólk skólans berst gegn einelti með öllum tiltækum ráðum.

Í skólanum ríkir faglegur metnaður og leitast er eftir að skólinn sé eftirsóttur vinnustaður þar sem starfsmenn finna fyrir öryggi og vellíðan og fá tækifæri til að vaxa í starfi.