Agnes Ósk

Síðustu vikur hafa nemendur í öðrum bekk komið í litlum hópum til sérkennara í notalega lestrarstund. Markmiðið með lestrarstundinni er að kynna nemendum fyrir nýjum leiðum til lesturs, auka áhuga þeirra á lestri og þjálfa samvinnu. Við vinnum lestraræfingar í spjaldtölvu, notum þá m.a. forritin wordwall.net, 100ord.is og Lestrarleikurinn. Þau vinna í sameiningu að því að para saman mynd og texta og er þar unnið með lesskilning og afstöðuhugtök. Þau fá einnig næðisstund fyrir yndislestur þar sem þau nota stækkunargler, óskastein og nýstárlega lestrar stellingar sér til hvatningar. Í lokin fá allir að setja saman Lego fígúru eftir leiðbeiningum.

Lestrarþjálfun er skemmtileg og getur verið alls konar.

 

Guðrún Elva

Í fyrsta bekk eru allir komnir af stað í lestri og nemendur duglegir að æfa sig. Sérkennari fer inn í heimastofu allra bekkja einu sinni í viku þar sem unnið er í íslensku verkefnum í hringekju. Það þýðir að það eru 4 stöðvar sem allir fara einu sinni á í 10-12 mínútur í senn. Verkefnin tengjast alltaf stafavinnu og lestri ásamt því að vera stundum samþætt við önnur fög svo sem samfélagsfræði. Núna eru nemendur að læra um húsdýrin og er þá t.d. ein stöðin að lesa spjöld með upplýsingum um húsdýr. Á spjaldinu eru svo myndir af þremur húsdýrum og nemendur leggja lítinn hlut á mynd af því dýri sem lesið var um.

Stundum koma einhverjir nemendur í heimsókn til sérkennara í hennar stofu og æfa sig í allskyns stafa og lestrarvinnu sem fram fer yfirleitt í gegnum leik svo sem að spila, fara í bingó, finna leyniorð og fleira. Það eru allir jákvæðir og glaðir að heimsækja sérkennslustofuna og fá að æfa sig, stundum komast færri að en vilja!

 

Nedelina Ivanova

Við í 3. bekk byrjuðum í PALS lestrarátaki í vikunni. PALS er skammstöfun fyrir Pör Að Læra Saman og er markmiðið með aðferðinni að þjálfa alla nemendur samtímis í lestri með jafningjamiðlaðri nálgun. Næstu fjórar vikurnar verða tileinkaðar PALS lestrinum. Einnig höfum við verið að undirbúa okkur fyrir Orðarún með því að hlusta og/eða lesa texta og svara spurningum.

Í 2. bekk erum við m.a. að vinna með ritun texta. Það er gaman að segja frá því að þegar kennarinn sagði; Jæja, nú eigið þið að skrifa stutta sögu um fjallaferð þá andmældu nemendurnir með því að segja: Nei, við viljum ekki skrifa stutta sögu! Við viljum skrifa langa sögu.

Í 1. bekk erum við að vinna með hljóð, bókstafi og að æfa okkur að lesa.