Nemendur í 7. bekk, sem flestir hverjir eru einnig í tónlistarnámu hjá Zsuzsanna Budai í tónlistarskólanum í Skarðshlíð, efndu til mikillar Bítlahátíðar í gær í hátíðarsalnum. Þar sögðu þær Karen Dís Káradóttir og Marín Yngvadóttir sögu Bítlanna í máli og myndum meðan tónlistarfólk steig á stokk og lék lög úr smiðju þeirra fjórmenninga. Árný Emma Rósenkjær braut ísinn og lék Yesterday ásamt Jón Sigurður Eyjólfssyni stærðfræðikennara sem hafði tónlistarlega umsjón með tónleikunum ásamt Zsuzsönnu. Á eftir henni lék Annelí Freyja Arnþórsdóttir Hey Jude en þá steig fram yngsta tónlistarkonan, hún Hafrún Erna Buchholz sem lék Michelle af miklu öryggi. Hún er í 5. bekk svo það má ljóst vera að þarna er hin efnilegasta tónlistarstúlka á ferð. Þá komu Hildur Ingibjörg Helgadóttir og flutti Here and There and Everywhere við undurfagran söng Adríans Evans Viktorssonar. Hann hefur gott lag á að herma eftir Michael Jackson svo það fór vel á því að hann syngi einnig gamla smellinn The Girl Is Mine sem popgoðið gerði vinsælt í flutningi sínum og Bítilsins Paul McCartney. Um flest lög höfðu sögumennirnir, Karen Dís og Marín, sögu að segja meðal annars að Paul hefði búið til hið fallega lag Yesterday í svefni. Eins eru samnemendur þeirra nú orðnir fróðari um það hvaðan Bítlarnir komu og hvaða áhrif þeir höfðu á heimsmenninguna.

Svo var komið að rúsínunni í pylsuendanum en það var hljómsveit skipuð eldhressum fjórmenningum. Þeim Emil Ágústi Hilmarssyni, sem sló taktinn á kassa eða cajón einsog það er kallað í brannsanum, Mangúsi Loga Þorkelssyni sem lék á bassa, Víkingi Hrafni Steinarssyni gítarleikara og söngvarnum Ólíver Daða Halldórssyni. Er óhætt að segja að allt hafi ætlað um koll að keyra þegar þeir tóku smellinn Let It Be svo ekki var hjá því komist að þeir tækju aukalag sem var Hey Jude, sem þar með hljómaði öðru sinni.

Mjög ólíklegt verður að teljast að þetta verði einu tónleikar sveitarinnar og eins er víst að það á eftir að heyrast meira frá öllu því tónlistarfólki sem þarna kom fram og bjó til þessa dásamlegu morgunstund sem mun líða seint úr minni.